145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[13:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Á síðustu vikum og mánuðum hafa hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, eða Daesh, lýst ábyrgð á nokkrum stórum hryðjuverkaárásum og eru þá ótalin öll ódæðisverk þeirra í Sýrlandi og Írak. Þetta eru sprengjutilræði í Ankara í Tyrklandi, rússnesk farþegaþota sem var sprengd, sjálfsmorðssprengjuárásir í Beirút og í Líbanon, árásir í Túnis og síðast fjöldamorð í París í Frakklandi. Þótt síðasttöldu morðin veki mesta athygli og óhug hér á landi vegna nálægðarinnar og tengsla okkar við Frakkland hlýtur samúð okkar að vera með öllu því fólki sem á um sárt að binda vegna allra þessara voðaverka. Þótt tala fallinna í þessum árásum sé skelfilega há er hún nánast bara dropi í hafið ef horft er til mannfallsins í styrjöldum sem geisað hafa í næsta nágrenni við Evrópu um árabil og hafa með beinum eða óbeinum hætti leitt til þessara atburða.

Innrásin í Írak árið 2003 er einhver stærstu mistök sem gerð hafa verið í vestrænni utanríkisstefnu. Hófsamar áætlanir telja að milljón manns hafi dáið vegna stríðsins í Írak. Upplausnin sem af því leiddi gat af sér þessi illræmdu hryðjuverkasamtök og ýttu undir borgarastríðið í Sýrlandi sem nú hefur kostað að minnsta kosti 250 þús. manns lífið og hrakið milljónir á flótta. Um þetta verður ekki deilt.

Ástæða þess að stríðið í Sýrlandi hefur getað haldið áfram svo lengi er sífelld og viðvarandi íhlutun fjölda utanaðkomandi ríkja sem öll hugsa fyrst og fremst um að ná fram sínum eigin markmiðum. Þar er enginn undanskilinn, hvorki Rússar, Íranar, Tyrkir, Frakkar, Bandaríkjamenn né furstaríkin við Persaflóa. Jafnvel á fyrstu klukkustundunum eftir hryðjuverkaárásirnar í París reyndust viðbrögð franskra ráðamanna vera á þá leið að kynda undir ófriðarbálið með því að varpa sprengjum á borgina Raqqa líkt og áframhaldandi blóðsúthellingar í Sýrlandi gætu á einhvern hátt grætt sár Parísarbúa. Öllum má þó vera ljóst að út úr öngstrætinu í Sýrlandi verður ekki komist nema með pólitískum leiðum og með því að öll stórveldin á svæðinu hætti tafarlaust að vígbúa og fjármagna stríðandi fylkingar.

Hæstv. forseti. Síst af öllu mega hryðjuverkaárásirnar í París verða til þess að stríðshrjáð og landflótta fólk verði fyrir aðkasti í Evrópu eða að stjórnvöld Evrópulanda noti þær sem átyllu til að skjóta sér undan sammannlegri ábyrgð sinni á að hjálpa fólki í neyð. Á sama hátt verða samfélög Vestur-Evrópu að vera meðvituð um þá hættu sem það hefur í för með sér ef einstakir þjóðfélagshópar eru jaðarsettir og eiga minni möguleika en aðrir, t.d. til menntunar og atvinnu vegna fordóma og bágrar félagslegrar stöðu. Við megum ekki hlusta á raddir þeirra sem nota hryðjuverk og ótta til að réttlæta aðskilnað og sundurgreiningu hópa sem búa saman í samfélagi. Með því að taka undir slíkt værum við í raun að fallast á málflutning ofstækismanna hvaða nöfnum sem þeir nefnast.

Herra forseti. Hin raunverulega undirrót flestra ef ekki allra átaka og borgarastyrjalda í heiminum er efnahagsleg og skýrist af arðráni eða misskiptingu auðsins sem ekki sér fyrir endann á. Gegn þessu verður ekki barist með því að Vesturlönd efni sífellt til nýrra stríða eða blandi sér í þau sem nú þegar eru í gangi. Sigurinn í baráttu gegn hryðjuverkum vinnst ekki með sprengjum úr háloftunum. Hann vinnst heldur ekki með vígvæðingu lögreglunnar, víðtækum njósnum um borgarana eða hertu landamæraeftirliti. Hann vinnst einungis með því að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Þannig heiðrum við best minningu þess fólks sem lét lífið í árásunum í París og öllum öðrum hryðjuverkaárásum sem við höfum horft upp á síðustu missiri.