145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég var staddur í Þórsmörk um helgina í hinu lífi mínu sem fararstjóri í litlum félagsskap sem heitir Ferðafélag barnanna, frá föstudegi til sunnudags, og komst þess vegna ekki að þessum atburðum fyrr en ég kom heim á sunnudegi. Í Þórsmörk léku börn sér í snjó og kjarri og mér varð hugsað til þess litla fótar sem fjallað er um í kvæði nóbelsskáldsins, sem veit ekki hversu hart heimsins grjót er, og um heimsins ráð sem brugga vondir menn, þegar þessir atburðir vitnuðust mér og þeim sem voru í þessari ferð.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var staddur í New York 2001 skömmu eftir hryðjuverkin þar, sem fréttamaður á vettvangi þeirra skelfilegu atburða. Það rifjaði upp fyrir mér þann vanmátt sem maður upplifir gagnvart slíku voðaverki. En jafn grimmilegur og tilefnislaus sem sá verknaður var verður maður að viðurkenna með sjálfum sér að hann var ekki samhengislaus, hann var hluti af atburðarás sem rekja má aftur til borgarastyrjaldarinnar í Afganistan áratug áður og jafnvel enn lengra aftur í tímann. Þannig má segja líka að Íraksstríðið, sem leiddi af þeirri hryðjuverkaárás að hluta til, hafi getið af sér flesta þá herforingja sem nú stýra ISIS sem ber ábyrgð á voðaverkunum í París. Það er til minnis um það að ákvarðanirnar sem við tökum í dag geta lifað með okkur um langa hríð.

Menn tala mikið í því samhengi að breyta ekki gildum sínum og viðhalda þeim. En ég held að menn hljóti að ræða um gildi hins vestræna heims þegar kemur að afskiptum í öðrum heimsálfum, þegar kemur að hagsmunagæslu (Forseti hringir.) fjarri okkar eigin löndum, vegna þess að það er hluti af þeirri atburðarás sem við sjáum í dag.