145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans.

Mig langar til að gera nokkrar athugasemdir. Í fyrsta lagi, eins og hæstv. ráðherra nefndi, er verið að samræma höfundalög norrænum höfundalögum. Hins vegar sé ég strax að fyrsti kaflinn er í raun og veru bara bein þýðing úr sænskum höfundalögum. Mig langar þess vegna að vita af hverju sænsk höfundalög voru valin og hvaða stöðu sænsk höfundalög hafa í íslensku réttarsamfélagi, sérstaklega með það að leiðarljósi að framkvæmdarvaldið, eða ráðherra, býr til þessi lög. Af hverju er verið að taka sænsk höfundalög? Af hverju ekki finnsk höfundalög? Þau eru líka norræn. Þau eru töluvert framsæknari en þau sænsku.

Svo langar mig að vekja athygli á tilskipun Evrópusambandsins frá 2001, InfoSoc Directive, eins og hún heitir á ensku, að verið er að endurskoða hana. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra viti hvaða vinna á sér stað þar og af hverju verið er að færa okkur nær 2001-tilskipuninni þegar Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, er nú þegar búinn að segja að hann ætli að endurskoða höfundarétt statt og stöðugt í Evrópusambandinu.

Mig langar líka að fá að vita hvort 9. gr. sé í samræmi við Marrakesh-sáttmálann sem á að tryggja aðgengi blindra, sjónskertra og lestrarhamlaða að efni sem birt er, eða hvort til standi að innleiða þar að auki Marrakesh-sáttmálann. Við skulum byrja á þessu.