145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

334. mál
[18:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ávinningurinn er auðvitað sá sem felst í tilganginum með þessu frumvarpi, að tryggja að það séu ekki gloppur í því að færa menningararf Evrópu yfir á stafrænt form.

Hvað varðar eftirlitið þá vil ég bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, að gerð er krafa um að það fari fram ítarleg leit að rétthöfum áður en verkin eru notuð. Svo ég grípi nú hér niður í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Tilskipunin skyldar þær stofnanir sem framkvæma ítarlega leit og sem nota munaðarlaus verk til að halda skrá yfir leitina“ — það er í fyrsta lagi að það sé skrá yfir leitina — „og afnotin ásamt upplýsingum um stöðu munaðarlausra verka og tengiliðaupplýsingum um viðkomandi stofnun. […] Skráðar upplýsingar skal senda til lögbærra stjórnvalda í viðkomandi ríki, samanber 5. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Jafnframt skal þeim komið til miðlægs evrópsks gagnagrunns sem rekinn skal af samræmingarskrifstofu innri markaðarins …“ og sá grunnur skal vera aðgengilegur almenningi, samanber 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Tilgangurinn með þessum miðlæga gagnagrunni er að koma í veg fyrir tvíverknað og jafnframt að hjálpa rétthöfum og öðrum að finna upplýsingar um verk sem talin eru munaðarlaus. Ég tel að með þessu fyrirkomulagi sé tryggt að þeir sem eiga verkin hafi aðgang og geti fylgst með því hvort verk sem eru í þeirra eigu séu talin munaðarlaus og gert þá vart við sig og fengið greiddar bætur ef búið er að birta verkin og hafa af því tekjur, þá geta menn gripið þar inn í. Eins verður líka haldin um það ítarleg skrá og farið nákvæmlega yfir það hvernig að leitinni hefur verið staðið og þar til bærum stjórnvöldum fengnar slíkar upplýsingar. Samanvirkt tel ég að gætt sé að réttindum allra í þessu máli.