145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að sverja fyrir að það hafi ekki komið fyrir á köflum að stjórnarliðar hafi kosið að vera frekar þöglir og hljóðir á meðan verið var að afgreiða ýmislegt frá ríkisstjórnum, t.d. erfiða hluti sem sneru að efnahagsvanda og öðru slíku, en það er þó ólíku saman að jafna þegar í hlut á mál af þessu tagi sem enga nauðsyn ber til að afgreiða. Ég held að erfitt sé að túlka þögn stjórnarliða hér á aðra lund en þá að þeir brenni ekki mikið fyrir þessu máli. Þeir vilja ekki mikið á sig leggja til að hjálpa ráðherranum. Þeir hlaupa ekki í skarðið og koma með röksemdir fyrir þessu máli. Ég hef ekki heyrt þær úr munni eins einasta stjórnarliða. Er það ekki rétt munað að það hafi aðeins einn stjórnarliði í raun og veru haldið ræðu í þessu máli, fyrir utan framsögu fyrir nefndaráliti, og sá aðili var á móti þessu eða a.m.k. hafði um það miklar efasemdir? (Gripið fram í.) Og hefur fyrirvara enn, þannig að það bendir mjög sterklega til þess að málið hafi takmarkaðan stuðning.

Varðandi fyrri spurningu í fyrra andsvari hv. þingmanns um að hvort ekki væri erfitt að stíga skrefið til baka ef stofnunin yrði lögð niður, jú, ég óttast það mjög mikið. Það er náttúrlega almennt ekki stemningin að stofna nýjar opinberar stofnanir eða fjölga þeim. Þó skal maður aldrei segja aldrei, embætti húsameistara ríkisins var nú endurvakið á dögunum og allt í einu var búin til einhver stjórnsýslustofnun ferðamála þannig að menn eru kannski ekki eins heilagir og þeir vilja vera láta. En aðalatriðið er auðvitað að þá á sér stað svo mikil sóun. Þótt menn kæmust að þeirri niðurstöðu að þetta hefðu verið allt saman mistök þá hefði augljóslega átt sér stað mikil sóun, mikill tími farið í þessa óvissu og hringl, óvissu gagnvart starfsmönnum og hætta á að fagleg þekking, þráðurinn tapist, slitni eða trosni á leiðinni. Menn eiga að hugsa sig mjög vel um áður en þeir fara út í aðgerð af þessu tagi svo að það glatist ekki verðmæti í slíku ferli og þess þá heldur þegar engin ástæða knýr menn til þess. Þetta mál er algerlega ótímabært og það ætti að gefa sér í öllu falli miklu meiri tíma til að liggja yfir þessu áður en menn kæmust að endanlegri niðurstöðu.