145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er orðið ljóst á klukkunni að þessari umræðu lýkur ekki í dag og við munum halda henni áfram á morgun. Þess vegna langar mig til að leggja inn hugsun, bæði hjá hæstv. forseta en ekki síður formanni nefndarinnar og öðrum þeim fulltrúum meiri hlutans sem heyra á mál okkar.

Málið er sannarlega á forræði þingsins og við höfum áður séð góð dæmi um það að þingið hafi tekið mál sem hafa á einhvern hátt verið vanbúin eða verið þeirrar gerðar að betra væri að leiða þau í sáttafarveg og fært þau í þann farveg. Ég vil nefna til dæmis afturköllun náttúruverndarlaga sem tókst að afstýra og færa í uppbyggilegan og góðan farveg. Ég veit að hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar var upphafsmaður að því að setja ný útlendingalög í þverpólitískan farveg, sem er einmitt málaflokkur af því tagi sem hér er til umræðu, þ.e. málaflokkur sem við eigum að reyna að ná þverpólitískri samstöðu um. Þess vegna vil ég biðja hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og fleiri fulltrúa meiri hlutans sem hér eru, að íhuga það til morguns þegar hlé verður gert á þessari umræðu að freista þess að ná öllum að borðinu og íhuga næstu skref.