145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er frekar sorgmædd yfir því að við skulum vera að ræða þetta mál á þennan hátt vegna þess að ég er algerlega sannfærð um það að ef menn settust niður væri hægt að komast að einhverju samkomulagi um það hvernig við förum með málið. Það er eins og einhver þvermóðska eða samningar á bak við tjöldin milli stjórnarflokkanna ráði því að verið er að keyra málið í gegn. Við erum mjög mörg sem höfum lýst mikilli andstöðu við þetta mál. Ég spyr: Hvers vegna er ekki hlustað á það? Formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, er hér og þá væri gott að heyra af hverju það liggur svona mikið á þessu máli. Getum við ekki átt örlítið samtal um það hvernig við getum farið með það? Ég hef ekki heyrt neinn annan en ráðherrann sem þurfti að mæla fyrir málinu og formann nefndarinnar sem þurfti að mæla fyrir nefndaráliti tala fyrir þessu máli. Það hefur einn þingmaður stjórnarflokkanna, svo ég hafi heyrt, talað líka og hann var efins. Þess vegna skil ég ekki þetta offors og þá hörðu kröfu að frumvarpið verði afgreitt núna. Ég vil gjarnan fá frekari rökstuðning fyrir því hvers vegna menn eru ekki tilbúnir til að setjast yfir málið með okkur og reyna að finna eitthvað út úr þessu varðandi veginn áfram þegar kemur að þróunarsamvinnu.

Við lögðum nefnilega í þannig leiðangur fyrir árið 2008 þegar samþykkt var heildarlöggjöf um málaflokkinn. Það voru mjög góðir tímar vegna þess að það hafði vantað heildarlöggjöf og sett voru skýr markmið í málaflokknum og umgjörð til að fylgja og líka stefnumörkun. Þess vegna undra ég mig á því að svona skömmu síðar skuli menn ætla að taka mikla U-beygju í málaflokknum sem verið er að taka ákvörðun um hér og án þess að hlusta á mótrök. Það er búið að ákveða þetta. Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna ráðherra ákveður að taka stóran málaflokk, sem er í raun og veru sérsvið og fag, inn í ráðuneyti til sín. Það er eitt og sér harla óvenjulegt. Ég man ekki til þess, sjálf hef ég verið í yfir tveimur ráðuneytum, að við höfum nokkurn tímann gert það á þennan hátt eða dottið það í hug, að okkur þætti það eðlileg stjórnsýsla að taka málaflokk eins og þennan inn í ráðuneyti til okkar og vera þá þar með bæði framkvæmd og eftirlit með málaflokknum.

Við rekum þannig stjórnsýslu að við erum með stofnanir sem sjá um framkvæmd á flestum málum, ég tala nú ekki um í eins sérhæfðum málaflokkum og um ræðir. Datt hv. formanni utanríkismálanefndar í hug þegar hún var innanríkisráðherra að taka Vegagerðina inn í ráðuneyti sitt? Auðvitað ekki. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Vegagerðin er fagstofnun og þetta eru framkvæmdaraðilar og síðan er það ráðuneytisins að leggja stefnuna og línuna eftir forskrift Alþingis og fylgja því eftir að framkvæmdirnar séu í lagi. Það á ekkert annað við um þróunarsamvinnu. Af hverju er verið að koma svona fram við þróunarsamvinnu? Gæti það verið vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur engan áhuga á þróunarsamvinnu og málefnum hennar? Getur það verið? Það hlýtur að vera, vegna þess að virðingin fyrir málaflokknum miðað við þessa framkvæmd er engin. Þá verðum við líka að fá að vita það frá ríkisstjórninni og þeim sem fyrir henni tala í þinginu hvort þetta sé upphafið að því að menn fari að taka fagstofnanir inn í ráðuneyti. Er þetta byrjunin á einhverju slíku? Við þeim spurningum, virðulegi forseti, hef ég ekki fengið svör í a.m.k. þremur ræðum, af því að þau nenna ekki að svara því. „Agenda“ þeirra, virðulegi forseti, afsakaðu, ég geri mér grein fyrir því að íslenska er þingmálið, áætlun þeirra og fyrirætlan er hreinlega að leggja stofnunina niður og svo á þróunarsamvinnan eftir að verða smádeild í utanríkisráðuneytinu, vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa ekki áhuga á málinu. Þá eiga menn líka að þora að koma og segja það, en ekki tala digurbarkalega um að þetta hafi æðislega fín samlegðaráhrif. Það yrðu örugglega líka rosalega fín samlegðaráhrif af því að taka Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið, ef einhverjum dytti í hug að gera það með sömu rökum. En mönnum dettur það ekki í hug. Fyrst mönnum dettur í hug að gera þetta með Þróunarsamvinnustofnun þá spyr maður sig hvort það sé vegna þess að málaflokkurinn eigi hægt og rólega að fjara út. Menn hafa ekki áhuga á þróunarsamvinnu, telja hana ekki vera verkefni sitt. Við höfum margoft heyrt það frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar, frá formanni fjárlaganefndar sem hefur lýst því yfir að þetta sé ekki áherslumál, og fleirum. En menn eiga að vera heiðarlegir, standa hér og segja það en ekki reyna að bera fyrir sig einhverjar aðrar ástæður. Svo er það náttúrulega líka þannig, og við höfum oft farið yfir það í þessum stóli, að núverandi ríkisstjórn hefur saumað mjög harkalega að utanríkisráðuneytinu í niðurskurði og látið það ganga miklu lengra í niðurskurði en önnur ráðuneyti. En menn bjarga því ekki með því að kippa Þróunarsamvinnustofnun inn í ráðuneytið og taka með því fjármagn inn í einhver verkefni sem þar eru. Það eru ekki eðlilegir starfshættir, virðulegi forseti. Það er eitt af því sem við erum að mótmæla.

Ég verða einnig að nefna það sem hefur komið fram í umræðunni. Það er þess vegna sem við höfum óskað eftir því að menn bíði aðeins með þetta og bíði eftir því að við fáum jafningjamat DAC á starfsemi þróunarmála hér á landi og á starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar, sem er fyrirætlað á næsta ári. Af hverju leggja menn ekki í að fá þá niðurstöðu? Getur verið að það sé vegna þess að mönnum er alveg sama um faglegar úttektir? Líklega er mönnum alveg sama um þær. Það hefur komið fagleg úttekt frá DAC áður. Þegar við gengum inn í það ágæta batterí var aldeilis farið yfir starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar og þróunarsamvinnu hér á landi og margt merkilegt dregið fram. Getur verið að menn óttist að það hversu vel Þróunarsamvinnustofnun hefur tekist upp verði dregið fram í annað skipti og þá verði mönnum enn erfiðara en áður að leggja stofnunina niður og slá ryki í augu fólks með orðum eins og þeim sem eru í greinargerðinni og með blekkingum, eins og fram hefur komið þar sem fleiri skýrslur um ágæti þessa starfs liggja fyrir? Í þeirri skýrslu sem ég hef verið að vísa til, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði líka áðan og ASÍ gerir að umtalsefni í umsögn sinni, kemur fram að þótt Ísland sé smár aðili í þessu samstarfi sé það algjörlega á sama plani og þeir sem hafa verið að setja mest í þróunarsamvinnu á síðustu árum. Þar er líka sagt að DAC muni hagnast eða fá mjög mikið út úr einstökum sjónarmiðum og reynslu Íslands á þessu sviði miðað við það sem þeir hafa séð. Þeir segja líka, og það þykir mér einna áhugaverðast í umsögn þeirra, að dreifing valds frá Þróunarsamvinnustofnun til skrifstofanna úti á akrinum, ef svo má að orði komast, til einstaka undirskrifstofa, sé til mikillar fyrirmyndar vegna þess að það gefi skrifstofunum tækifæri til að bregðast hraðar við þörfum heimamanna sem aftur minnki þyngslin sem fylgja því að vera með mjög miðstýrð apparöt, vegna þess að þróunarsamvinna verði að vera á forsendum heimamanna. Þróunarsamvinna sem byggir á því að einhverjir frá hinum vestræna heimi sem telja sig vita allt mæta á svæðið og segja mönnum hvernig hlutirnir eigi að vera er löngu úrelt. Það eru áratugir síðan Sameinuðu þjóðirnar drógu það vel fram hvers konar eyðileggingu slík viðhorf geta haft í för með sér í þeim samfélögum sem á að reyna að hjálpa. Síðan þá hafa menn verið að reyna að vinna með heimamönnum að því að byggja upp samfélög þeirra á þeirra forsendum til að menn séu ekki að riðla samfélagsgerð heilu þjóðanna, eins og því miður eru svo mörg sorgleg dæmi um í fortíðinni.

Ég verð þess vegna að segja að ég hef áhyggjur af því að þetta atriði, sú dreifing valds sem Þróunarsamvinnustofnun er hrósað sérstaklega fyrir í DAC-skýrslunni, þ.e. að gefa sendiskrifstofum sínum svona mikinn sveigjanleika, muni líða undir lok og menn fari aftur að horfa í stórar pakkalausnir, sem eru ekki það sem við eigum að vera horfa til. Við höfum ekkert séð um stefnuna að öðru leyti. Ég hef áhyggjur af því og vil spyrja formann nefndarinnar hvernig menn sjá það fyrir sér. Passar sú valddreifing sem hrósað er fyrir inn í þetta módel, þ.e. innlimun ráðuneytisins á Þróunarsamvinnustofnun? Ég sé ekki betur en að þetta gangi einmitt gegn þeim sjónarmiðum. Það er að mínu mati oft alveg ágætt og ástæða til að sameina stofnanir og gera ýmislegt hagkvæmara og reyna að minnka yfirbyggingu en ég tel hins vegar algert óráð á okkar tímum, á þeim tímum þegar krafist er aukins gagnsæis og fyrirsjáanleika og að menn geti séð vel inn í það sem verið er að gera í einstaka málaflokkum, að taka stofnanir inn í ráðuneyti. Ég hélt fyrst að það væri verið að grínast, að menn væru með langan brandara í gangi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það hér að sumir hafa gert lítið úr þessu, sagt að þetta sé eingöngu formbreyting. En þetta er það nefnilega ekki. Á yfirborðinu er þetta formbreyting en þegar menn fara að skoða það er hér í raun eðlisbreyting á ferðinni.

Eins og ég kom inn á áðan gekk stofnunin nýlega í gegnum töluverðar breytingar til þess að laga hana að nútímalegri stjórnsýslu. Ríkisendurskoðun hefur árum saman beint til ráðuneyta og stofnana að einfalda stjórnun og koma stofnunum undir betri stjórn og lögin frá árinu 2008 höfðu það í för með sér að öll stjórnun á þessum málum varð straumlínulagaðri og stofnunin var löguð að nútímanum. Ég tel að það sé allt of snemmt að gera þetta á þennan hátt og líka vegna þess að verið er að rjúfa friðinn sem hefur ríkt um þennan málaflokk í þó nokkuð langan tíma. Það náðist býsna góð samstaða um heildarlöggjöfina 2008 og við vorum dálítið ánægð með okkur að hafa náð henni í gegn. Þess vegna er sorglegt og eiginlega þyngra en tárum taki að menn skuli fara fram í þessu máli af jafn miklu offorsi.

Ríkisendurskoðun hefur líka lagt áherslu á það að framkvæmd og eftirlit sé ekki á sömu hendi. Maður verður því enn og aftur að spyrja: Hvernig má það vera að menn ætli að fara þessa leið? Þykir þetta í alvörunni góð stjórnsýsla? Eru menn almennt sáttir við það í stjórnarflokkunum að verið sé að grauta saman framkvæmd og eftirliti inni í ráðuneyti í svona stórum og mikilvægum málaflokki? Það hefur einnig komið fram að það er ekki eins og Þróunarsamvinnustofnun hafi verið á svörtum lista hjá Ríkisendurskoðun, þvert á móti hefur hún fengið töluvert hrós fyrir það að vera með útgjöld sín algerlega innan ramma fjárlaga. Hún er ein af fáum stofnunum sem tekst það ár eftir ár. Þess vegna er frumvarpið óskiljanlegt og ég mundi vilja að við fengjum betri skýringu á því. Það er lágmark að menn segi okkur í alvörunni hvað það er sem vakir fyrir þeim. Er það það að sækja fjármagn inn í ráðuneytið eða að menn hafa ekki áhuga á málaflokknum og telja ekki að þetta sé verkefni sem við eigum að sinna af neinum myndarskap? Eða bæði, menn telja þetta ekki verkefni sem við eigum að vera að sinna af neinum myndarskap og þar af leiðandi sjá þeir sæng sína upp reidda og ná sér í aur inn í ráðuneyti með því að láta þróunarsamvinnu síðan fjara út? Þetta eru spurningar sem ég held að við verðum að fá svör við.

Það er annað sem ég vil koma aðeins betur inn á og það er að ég vil að formaður nefndarinnar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, svari mér því hvers vegna ekki má bíða eftir DAC-skýrslunni. Það verður gerð önnur úttekt á næsta ári og henni skilað til okkar. Af hverju nýtum við ekki ferðina og gerum þetta dálítið vel, prófum að gera hlutina vel og fá mat á því sem við erum að gera utan frá? Það kemur oft eitthvað ágætt út úr því. Af hverju getum við ekki beðið? Mér er það algerlega óskiljanlegt. Það er eins og oft er sagt, glöggt er gests augað og allt það. Eru menn þá ekki tilbúnir til að bíða? Það hafa að minnsta kosti tveir aðilar sem ég virði mikils, bæði á sviði þróunarmála og stjórnsýslu, þau Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Þórir Guðmundsson, auðvitað ásamt fleirum, látið sig málið varða og komið að úttektum á málaflokknum og þau hafa ekki komist að sömu niðurstöðu. Það gerir okkur ekki auðvelt fyrir í málinu þegar virtir aðilar, bæði tengdir málaflokknum og líka tengdir á sviði stjórnsýslu, komast ekki að sömu niðurstöðu. Ég hefði því talið að ef menn vildu vanda sig mundu þeir taka himinlifandi á móti jafningjamatinu frá DAC á næsta ári. Það liggur ekki svona mikið á.

Vonandi fáum skýringar á þessum hraða á eftir og á því af hverju ekki má bíða eftir þessu mati. Ég held að íslensk stjórnsýsla hefði oft gott af því að vera rýnd utan frá. Þegar það er gert eigum við að fagna því og þiggja það og jafnvel hlusta pínulítið á það sem sagt er. En það ætla menn ekki að gera hér, heldur keyra málið áfram og keyra það áfram í mikilli andstöðu og óeiningu innan þingsins, sem ég vil meina að sé málaflokknum til vansa og þessarar ríkisstjórn til gríðarlega mikils vansa. Af hverju eru menn að búa til ágreining og deilur um þróunarsamvinnu? Erum við ekki öll sammála um það að við eigum að vera öflug á sviði þróunarsamvinnu?

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Ég mundi vilja að við legðum þetta mál núna til hliðar, fengjum að setjast niður með ráðherra, formanni nefndarinnar og gera aðra atlögu að því að ná sátt um það. Það er gríðarlega mikil andstaða við málið innan þingsins og við erum mörg sem sjáum mikla annmarka á því. Svo eru aðrir sem eru ekkert endilega að fara setja mjög harkalega niður fótinn gegn því en vilja gjarnan bíða og sjá hvað DAC-skýrslan segir okkur. Það er ákveðin skynsemi í því. Það eru ýmiss sjónarmið hér inni og ég held að við ættum alla vega að reyna og gera atlögu að því að setjast sameiginlega yfir þetta og ná einhverri lendingu um málsmeðferðina. Það hefur verið boðin af hv. þm. Ögmundi Jónassyni og fleirum ákveðin málamiðlun um að menn leggi málið til hliðar og bíði eftir DAC-skýrslunni. Mér finnst það skynsamlegt. Ef mér leyfist að segja það, virðulegi forseti, finnst mér út úr kú að þiggja ekki slíka úttekt. Það er stórundarlegt að gera það ekki. Ég veit það að þegar ég var í ráðuneytunum á síðasta kjörtímabili hefði ég tekið því fegins hendi að fá ráðgjöf utan frá eða að minnsta kosti sýn á það sem verið var að gera. Það er mjög dýrmætt og við skulum ekki slá hendinni á móti því. Við í Samfylkingunni erum að minnsta kosti ekki til í að taka þátt í slíkum leiðangri, alveg eins og við erum ekki til í að taka þátt í þeim leiðangri að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og þar með þá skýru sýn á þróunarmálin sem verið hefur við lýði og verið einkennandi fyrir Ísland, það er skýr sýn og (Forseti hringir.) þar höfum við náð að nýta styrkleika okkar þegar kemur að þróunarsamvinnu.