145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski ætti Ríkisendurskoðun einmitt að gera það. Það er alveg með ólíkindum, eins og fram hefur komið í þessu máli, að dylgjur og aðrir hlutir séu sagðir undir rós í greinargerð með frumvarpinu. Það sama átti sér líka stað í öðru máli frá sama ráðherra þegar átti að draga til baka aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Þá var gefið í skyn að menn hefðu á síðasta þingi ekki greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni o.s.frv. Rökstuðningurinn er svo veikur að menn eru farnir að bera á torg mjög ófaglega texta undir því yfirskini að hann sé úr ráðuneyti. Ég trúi því bara ekki að starfsmenn ráðuneytisins, það ágæta fólk, hafi komið nokkuð nálægt þessu máli. Þetta er bara pólitík og ekkert annað.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég vona að það verði hlustað á okkur og við hættum þessari umræðu og reynum fyrir alvöru að sjá hvort við getum ekki náð einhverri samstöðu um málið. Núna er ekki einu sinni nokkur stjórnarþingmaður í salnum, sem ætlar að ræða við okkur um þetta mál. Ef þetta er ekki mál sem menn eru tilbúnir að slást fyrir, sem við erum svona andsnúin, þá fyndist mér eðlilegt að menn reyndu að sjá hvort að það væri ekki einhver flötur á að ná saman. Annars vona ég að menn komi hingað upp og svipti af sér hulunni og segi það þá að þetta sé liður í því að draga úr þróunarsamvinnu Íslands, þátttöku okkar í slíkum verkefnum. Það er það eina sem ég get sé að muni koma út úr þessu.

Ég hef áhyggjur af þróunarsamvinnunni verði frumvarpið að veruleika. Eins og hv. þingmaður nefndi þá er þetta fag, þetta er sérsvið. Það er gríðarleg vinna og fræði að baki þróunarsamvinnu og það þarf þess vegna að vera mjög skýr rammi utan um hana. (Forseti hringir.) Hér er verið að kippa honum í burtu.