145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og verð að lýsa því að ég er svo hjartanlega sammála því að ég skil ekki hvernig er hægt að hafa þessa umsögn um Þróunarsamvinnustofnun og komast svo að þeirri niðurstöðu sem þetta frumvarp er.

Það er annað mál sem mig langar að ræða við hv. þingmann sem tengist því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og einnig því sem kom fram í andsvörum áðan. Það snýr að því að flókið sé að fylgjast með því hvernig fjármagn sem fer inn í þróunarsamvinnu er varið, þá sérstaklega að erfiðara sé að fylgjast með því sem gerist í ráðuneytinu en því hvernig fé er ráðstafað í sérstakri stofnun. Við þetta bætist svo að eitt af markmiðunum með því að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa inn í utanríkisráðuneytið er að koma á sterkari tengslum á milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála.

Mig langar að taka þetta yfir á víðara svið en því sem snýr að Íslandi og íslenskri stjórnsýslu, taka þetta út fyrir landsteinana og setja það í hnattrænt samhengi. Nú er oft talað um yfirgang Vesturveldanna eða yfirgang ríkari þjóða og ásælni þeirra í að skipta sér af hagsmunum í öðrum ríkjum. Er hv. þingmaður mér sammála um að þetta sé hættulegt, ekki einungis fyrir íslenska stjórnsýslu og það hvernig Ísland hagar sér í þróunarsamvinnu sinni, heldur sé þetta hreinlega hættulegt þegar kemur að því að taka á og fjalla um misskiptingu auðs í samfélaginu glóbalt (Forseti hringir.) og það hvernig ríkari þjóðir heimsins styrkja þær sem veikar standa?