145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:29]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef minnst á það hér áður að mér finnst þetta með því ólýðræðislegra sem gerist og ég velti fyrir mér hvort þetta séu dagleg vinnubrögð hér á Alþingi Íslendinga. Alþingi og aðrir koma síðan af fjöllum þegar traust til Alþingis mælist með lægsta móti — þrátt fyrir að reyna að auka gagnsæi sitt og vera á Twitter og vera á samfélagsmiðlum og annað.

En ef ekki fæst lýðræðisleg umræða með eða á móti og með rökum um stór mál þá er ég ekki hissa. Satt best að segja. Þá er ég sko alls ekki hissa á því að fólk skuli vantreysta þessari stofnun því að hér er grunnurinn lagður, hér eru ákvarðanir teknar.

Hér á að fara fram atkvæðagreiðsla á eftir. Mér er stillt upp við vegg. Ég á að greiða atkvæði með eða á móti og ég hef aldrei fengið að heyra hver rökin eru með málinu.