145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:46]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Við veltum fyrir okkur hugmyndum um einkavæðingu Landsbankans og þá þarf að taka inn í þá umræðu hvort rétt sé að selja hann og þá hvenær. Staðan er þannig að Landsbankinn mun greiða okkur gríðarlegan arð þetta árið. Talað er um jafnvel 30 milljarða og að hann sé jafnvel í stakk búinn til að borga enn meira.

Þá veltum við fyrir okkur, eða ég: Á að selja fyrirtæki sem er í svona bullandi góðri stöðu að geta borgað eiganda sínum svona mikinn arð? Ekki síst eftir að hafa fara yfir og markað betur þær reglur sem fjármálafyrirtæki þurfa að vinna eftir þannig að ábyrgðin hvíli ekki aftur á þjóðinni ef eða þegar fjármálafyrirtæki kollsteypist.

Talað er einmitt um það í þessu samhengi að það minnki ábyrgðina með því að selja bankann, en ábyrgðin liggur að sjálfsögðu í þeim 600 milljörðum sem liggja þar í innstæðu sem við bárum ábyrgð á þegar bankarnir hrundu á sínum tíma og gerum enn og þó að reglurnar hafi verið hertar svolítið berum við enn ótrúlega mikla ábyrgð á þeim viðskiptum.

Það á líka eftir að taka ákvörðun um hvort skipta eigi bankastarfsemi upp í viðskiptabanka og fjárfestingarbanka eins og mjög margir eru á að skoða, m.a. við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og erum í rauninni sammála mörgum þeim sem hér sitja og velta þeim málum fyrir sér. Við þurfum að fara yfir þetta allt og stíga varlega til jarðar. (Forseti hringir.) Ég held að óráðlegt sé að selja hlut í Landsbankanum að svo stöddu, væntanlega eignir Íslandsbanka, við þurfum að selja hann, en Landsbankann eigum við að láta vera.