145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er mál í 2. umr. um Þróunarsamvinnustofnun, mál sem er hér að koma í annað skipti, var líka á síðasta löggjafarþingi, fór þá í gegnum 1. umr. í utanríkismálanefnd, afgreitt þaðan, líka afgreitt nú með meiri hluta atkvæða úr utanríkismálanefnd. Hér hafa verið fulltrúar úr utanríkismálanefnd að fylgja málinu eftir í þingsal, þeir hafa fylgst með umræðum.

Virðulegi forseti. Það er svo að ráðherrar koma hér til 1. umr., svo er þingið með málið á sinni könnu. Hér hefur verið talað um að ekki sé meirihlutastuðningur við málið, að ekki sé meiri hluti fyrir málinu. Þegar þetta mál kemst til atkvæðagreiðslu kemur í ljós hvort meiri hluti er fyrir því. Mér þykja þetta skemmtilegar ræður sem hér eru fluttar og hef fylgst með þeim af kostgæfni hér í dag. Ég vil bara segja að á meðan svo margir þurfa að tjá sig um málið þá mun ekki standa á þeim sem hér stendur að vera á þingfundi til kl. 8, 9, 10, 11, jafnvel til 12. Ég vil bara hvetja hæstv. forseta til að halda þessum fundi áfram þannig að við getum fengið fleiri góðar ræður um málið frá stjórnarandstöðunni.