145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

fjárþörf Landspítalans.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn sem er af svipuðum toga og áður hefur heyrst. Þegar við ræðum fjárframlög til heilbrigðismálanna í landinu hefur Landspítali – háskólasjúkrahús eðlilega þar mikla fyrirferð og er mjög stór eining og mikilvæg í því sambandi.

Það er rétt að forstjóri spítalans hefur tekið þessi mál upp við ráðuneytið og rætt þau. Við erum ekki að sjá að við fáum það svigrúm við fjárlagagerðina að við getum mætt öllum ýtrustu óskum spítalans, langur vegur þar frá. Við verðum líka að hafa í huga að hluti af fjármögnun kerfisins fer á árinu 2016, mjög stór hluti af því svigrúmi sem var við fjárlagagerðina, í launabætur á Landspítalanum sem og öðrum stofnunum.

Ég hef lagt á það áherslu númer eitt, tvö og þrjú við fjárlagagerðina og vinnuna fyrir 2. umr. að fjármagna biðlistaaðgerðir, að vinna á þeim biðlistum sem höfðu safnast upp í kerfinu. Það liggur fyrir að geta kerfisins til að þjónusta það verk er mjög misjöfn eftir stofnunum og eftir aðgerðum. Ég get í grundvallaratriðum tekið undir þau sjónarmið sem koma fram hjá forstjóra spítalans að ég treysti mati hans á því að hann telur kerfið hafa fulla þörf fyrir aukna fjármuni.

Ég vil sömuleiðis segja að áhersla mín við fjárlagagerðina fyrir árið 2016 — og það hef ég sagt áður úr þessum stóli — lýtur að þessu sinni að fjármögnun heilsugæslunnar, að hún hafi forgang. Við erum að fjölga þar sérnámsstöðum, við erum að auka þar sálgæslu og við erum líka að leggja aukna fjármuni í heimahjúkrun. Í pistli forstjórans, sem hér er vitnað til, er tekið undir að það muni á vissan hátt létta álagi af Landspítala – háskólasjúkrahúsi.