145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

fjárþörf Landspítalans.

[15:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég harma það að hæstv. heilbrigðisráðherra segi okkur hér óbeinlínis að ekki eigi að auka fjármagn og fjárframlög til Landspítalans í samræmi við þörf. Hér eru ekki á ferð ýtrustu kröfur. Forstjórinn fer yfir það sem verður að koma til, sem eru 2,5 milljarðar, til þess að hægt sé að reka spítalann innan ramma fjárlaga.

Ég verð þá að fá svör við þessum spurningum frá ráðherra: Ætlar ráðherra að tryggja þetta fé til spítalans? Ætlar hann að breyta lögum þannig að Landspítalinn geti rekið sig innan fjárlaga? Eða á einfaldlega að ákveða hér óbeinlínis að hallarekstur verði á Landspítalanum? Það er furðulegt, þegar á yfirstandandi ári hefur verið til fé í aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, að ekki sé hægt að fjármagna með reisn Landspítala þjóðarinnar.