145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

fjárþörf Landspítalans.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þingmanns vil ég segja, eins og ég veit að hún gerir sér fulla grein fyrir, að þegar ríkisstjórn hefur skilað af sér fjárlögum til Alþingis þá er allt umboð til breytinga á því frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í meðförum þingsins. Það kann vel að vera að vilji einstakra þingmanna eða einstakra ráðherra standi til óteljandi verka, en meginniðurstaðan er sú að það er þingið sem hefur fullt forræði yfir fjárlagafrumvarpinu meðan það er í vinnslu. Ég vona að það sé enginn misskilningur í þeim efnum.

Ég treysti því fullkomlega að stjórnendur spítalans haldi þau fjárlög sem þingið setur spítalanum. Þar hefur Landspítalanum og stjórnendum tekist mjög vel upp, sérstaklega á þessu ári þar sem að því er stefnt að spítalinn verði innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi markaði honum Ég geri ráð fyrir því að þannig verði haldið um stjórnartaumana á næstkomandi ári.