145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

335. mál
[16:16]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Við tölum aldrei of mikið um þennan málaflokk og það er alveg ljóst, eftir að hafa starfað sem þingmaður í tvö og hálft ár og einbeitt mér svolítið að þessum málum og komið mér inn í þau, að úrbóta er þörf. Maður er sleginn yfir öllum þeim fréttum og öllu því sem hefur viðgengist á Íslandi áratugum saman — framkomu, félagslegri útskúfun og mismunun gagnvart fötluðu fólki og ekki síst eru fatlaðar konur í hættu á að verða fyrir misnotkun. Ég fagna því reyndar sem hæstv. ráðherra sagði um þá vinnu sem er komin í gang og ég vona að hún leggi mikla áherslu á hana. Það gladdi mig líka að hún tók það fram í ræðu sinni að hún ætlaði að kalla fatlaða einstaklinga að borðinu til þess að vinna að þessu máli. Það tel ég vera eitt lykilatriði í að komast til botns þannig að við getum verið sátt í þessum málum, þ.e. að fá fatlað fólk að borðinu. Það veit um hvað málið snýst eins og hv. þingmaður Steinunn Þóra Árnadóttir sagði hér áðan, það er lykilatriði. Ég styð ráðherrann til allra góðra verka í þessu. Við þurfum að útrýma þessu þjóðarmeini.