145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir tækifæri til þess að ræða þetta mikilvæga mál hér í þingsölum, en það hefur verið forgangsmál mitt og ríkisstjórnarinnar að efla löggæslu í landinu sem er eins og við vitum öll grunnstoð í samfélaginu. Ég hef talað mjög skýrt fyrir því frá því ég tók við embætti innanríkisráðherra og mun áfram gera það. Ég legg áherslu á og tek undir það með hv. þingmanni að nauðsynlegt sé til lengri tíma að fjölga lögreglumönnum og styrkja starfsumhverfi lögreglunnar. Þess vegna liggur fyrir af okkar hálfu sú tillaga um að 400 millj. kr. verði veitt til löggæslumála, fái sú tillaga brautargengi hjá nefndinni og í sölum Alþingis, en hér er um að ræða breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið við 2. umr.

Þessi aukafjárveiting er skref í þá átt að efla löggæsluna. Þessir fjármunir verða bæði nýttir á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið. Við vitum að verkefni lögreglunnar hafa stóraukist, bæði í almennri löggæslu og vegna nýrra verkefna. Mikill straumur ferðamanna hefur að sjálfsögðu líka aukið álag á lögregluna og við því verðum við að bregðast. Það er mjög mikilvægt að öryggi sé tryggt fyrir borgara þessa lands og þá gesti sem hingað koma.

Við greiningu á lögregluembættum landsins hafa komið fram veikleikar í starfseminni sem er brýnt að mæta. Einn þeirra þátta er það mikilvæga hlutverk sem lögreglan gegnir við að tryggja öryggi eins og ég nefndi. Annar þáttur snýr að auknu gagnsæi í starfsemi lögreglunnar sem miðar að því að tryggja viðunandi þjónustu og öryggisstig. Þess ber jafnframt að geta að gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til að mæta auknum kostnaði Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna þjónustu við ferðamenn og ég vil draga það fram í þessari umræðu hversu miklu máli björgunarsveitirnar hafa skipt þegar kemur að þjónustu við ferðamenn. Það má alls ekki gleyma þeim mikilvæga þætti sem þeir sinna í sjálfboðavinnu og fyrir það eigum við að þakka.

Árið 2014 var svo stigið jákvætt skref þegar 500 millj. kr. var einnig varið til að efla löggæsluna og það hefur nú orðið að fastri tölu í fjárlagagerðinni. Það er líka mikilvægt. Þannig að þetta eru skref í rétta átt, en auðvitað vitum við að þetta er langtímaverkefni.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi búnað lögreglunnar. Eins og menn þekkja er meginreglan sú að íslenskir lögreglumenn eru ekki vopnaðir skotvopnum við dagleg störf og ekki stendur til að breyta því fyrirkomulagi eins og staðan er. Hins vegar býr lögreglan yfir vopnum. Þau eru geymd á lögreglustöðvum eða í lögreglubifreiðum samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Undir vissum kringumstæðum er lögreglu heimilt að vopnast. Settar hafa verið tilteknar reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, en þær hafa nú verið gerðar opinberar eins og við þekkjum og ég tel það mikilvægt.

Í lögreglulögum eru líka lögfest ákvæði um skyldur lögreglumanna vegna valdbeitingarheimilda og handtökuheimilda og annarra slíkra þátta. Það má aldrei ganga lengra í beitingu valds en nauðsynlegt hverju sinni. Það er grundvallarregla og það skiptir gríðarlega miklu máli að gæta hófs í meðferð valdsins. Lögreglunni ber ávallt að hafa meðalhófsregluna í heiðri við framkvæmd sinna starfa.

Það er einnig mjög nauðsynlegt að skýrt komi fram að það er ríkislögreglustjóri sem leggur mat á þörf lögreglu fyrir búnað hverju sinni og ákveður hverrar gerðar vopn lögreglu skuli vera. Ríkislögreglustjóra hefur þannig verið falið það hlutverk að meta þarfir lögreglu fyrir búnað, skipulag og þjálfun innan þeirra marka sem vopnareglur lögreglunnar segja til um. Það þarf til að mynda ekki atbeina ráðherra eða ráðuneytis til kaupa á vopnum svo fremi að fyrir hendi séu fjárheimildir og kaupin séu í samræmi við settar reglur. Mat ríkislögreglustjóra á búnaðarþörf lögreglunnar byggist á áhættumati á víðtækum grunni sem tekur mið af þróun mála hérlendis og erlendis og segir til um líklega framtíðarþróun. Það er mjög mikilvægt að þessi skipan mála sé mönnum ljóst.

Hæstv. forseti. Efling löggæslunnar er langtímaverkefni. Þegar hafa verið stigin ákveðin skref, en fleira þarf til. Þess vegna vil ég sérstaklega draga fram þá vinnu sem er í gangi við gerð löggæsluáætlunar þar sem verið er að teikna upp stóru myndina til lengri tíma svo við getum metið fjárþörfina og skipulagt þá fjármuni sem á þarf að halda til komandi ára og einnig hver mikilvægustu verkefni lögreglu eru. Tímans vegna get ég ekki í fyrri ræðu minni farið nánar yfir efni löggæsluáætlunar, ég reyni að koma inn á það í síðari ræðu minni, en ítreka það að hér er um að ræða málaflokk sem skiptir mjög miklu máli að traust ríki um (Forseti hringir.) og tryggður sé sá umbúnaður sem nauðsynlegur er til að gæta að verkefnum löggæslunnar. Það er verið að stíga skref í þá átt.