145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja hér í upphafi að forsenda þess að við getum hagað okkar daglega lífi með þeim hætti sem við gerum er sú að við getum fundið til öryggis. Allt snýst þetta um að lögreglan geti tryggt öryggi borgaranna og til þess að svo sé þarf að tryggja viðeigandi öryggisbúnað, mannafla, heimildir og þjálfun.

Þetta snýst ekki um að vopna almenna lögreglumenn við dagleg störf eins og margir vilja meina. Lögreglumenn vilja ekki vera vopnaðir og það er ekki stefna neins að svo verði. Hins vegar vilja lögreglumenn finna til öryggis með því að hafa aðgengi að þeim búnaði sem þarf til að tryggja öryggi og hafa leikni og þekkingu til að beita þeim búnaði á öruggan hátt. Það er hlutverk lögreglunnar og enginn er betur til þess fallinn en lögreglan að meta hvað hún þarf til að geta sinnt hlutverki sínu. Lögreglan þekkir aðstæður og hefur upplýsingar til að taka þær ákvarðanir sem þarf.

Það er að sjálfsögðu eðlileg krafa að ákvarðanir lögreglunnar séu rökstuddar og teknar með gagnsæjum hætti. Eftirlit hefur einnig komið til tals í því samhengi. Lögreglan hræðist ekki og er ekki á móti eftirliti heldur fagnar hún eftirliti því að þannig getur hún sýnt fram á að hún vinni faglega og unnið gegn þeirri tortryggni sem sumir virðast ala á í hennar garð.

Við skulum aðeins rifja upp hvað hefur gerst í aðdraganda þessarar umræðu í dag. Ríkislögreglustjóri hefur skilað inn greinargerðum nánast árlega frá árinu 2012 um viðbúnaðargetu lögreglunnar þar sem hefur líka verið unnin áhættu- og veikleikagreining á viðbragðsgetu lögreglunnar. Þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, lagði fram drög að löggæsluáætlun þar sem kom fram að auka þyrfti viðbragðsgetu lögreglunnar með aukinni þjálfun. Svo hefur komið fjármagn til að sinna því og öðru slíku síðan.

Ég vil bara segja að allt þetta fór fram áður en hörmungarnar í París dundu yfir. Ég tel því að ferlið hafi verið faglegt, upplýsingarnar hafi verið gefnar og jákvæð skref hafi (Forseti hringir.) verið stigin, en betur má ef duga skal.