145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:36]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka fyrir að hún hefur verið uppbyggileg og góð.

Öryggi er mikilvægt. Það er grundvöllur þess að samfélagið virki, sé opið og frjálst, að almenningur upplifi öryggi. Lögreglan er mjög mikilvægur þáttur í því. Við höfum lifað við þau gæði á Íslandi að traust til lögreglunnar hefur almennt mælst mjög hátt og eftir það hrun sem varð á trausti á stofnunum samfélagsins eftir stóra bankahrunið, þá hélst traustið til lögreglunnar áfram sterkt og það er mjög mikilvægt.

Lögreglan er fyrst og fremst þjónustustofnun til að hjálpa almenningi að upplifa og búa raunverulega við öryggi. Þess vegna er mjög mikilvægt að lögreglan búi við almennileg starfsskilyrði og er auðvitað ástæða til að fagna því sem verið er að bæta í vegna starfsskilyrða lögreglunnar.

En það skiptir líka miklu máli að svara ekki bara spurningum um misbeitingu valds heldur grun eða ótta á því að verið sé að misbeita valdi og þess vegna er meiri opnun á störf lögreglunnar, opinberun á heimildir til valdbeitingar o.s.frv. mjög jákvætt skref.

Mig langar rétt aðeins til að koma inn á landamæraeftirlitið sem málshefjandi talaði um í lok ræðu sinnar. Þar held ég að sé mjög mikilvægt að Ísland hugsi um forvarnagildi Schengen-samstarfsins, samstarf og upplýsingar sem lögregluembætti í Evrópu deila með sér undir Schengen-eftirlitinu. Schengen-eftirlitið skiptir miklu máli fyrir Ísland og Ísland á að tala fyrir því á evrópskum vettvangi að styrkja það samstarf.