145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Við þurfum að vera raunsæ og meta stöðuna eins og hún er og taka ákvörðun á grundvelli upplýsinga og gagna og mats.

Ég nefndi hér í ræðu minni að hlutverk ríkislögreglustjóra í þessum efnum væri gríðarlega mikilvægt. Við fáum áhættumat frá ríkislögreglustjóra þar sem farið er yfir ástand á hverjum tíma. Við erum líka með skýrslu um nauðsynlegan búnað lögreglunnar. Þegar verið er að tala um þörf fyrir búnað er rétt að taka það fram hér að það eru að ég hygg 73 þúsund skotvopn skráð í landinu. Það er ekki eins og engin vopn séu á Íslandi. Það er ágætt að gera sér grein fyrir því. Það þýðir að þau geta verið í ýmiss konar notkun, að sjálfsögðu eru vopnin að einhverju leyti notuð til veiða og slíkra hluta, en þetta eru vopn. Það er alveg ljóst að lögreglan í landinu, sem heldur í raun utan um öryggi okkar og frelsi sem er algerlega samofið, verður að geta brugðist við aðstæðum sem upp koma. Það er okkar að taka þau skref sem þarf til að tryggja að svo sé. Allt þarf þetta náttúrlega að vera á grundvelli meðalhófs og slíkra hluta en við skulum horfast í augu við stöðuna eins og hún er.

Við höfum stundum þurft að grípa inn í þegar að okkur hefur steðjað ógn. Við þekkjum það hér sem vorum í þingsölum fyrir nokkrum árum þegar ákveðið var að beita strangara landamæraeftirliti vegna Hells Angels-málsins. Það bar árangur af því að menn höfðu nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að styðjast við. Það er mikið grundvallaratriði. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt fyrir okkur um leið og við bregðumst við þeim bráða vanda sem að lögreglunni steðjar og höfum verið að bregðast við honum að við gerum á sama tíma áætlanir til lengri tíma. Það tekur tíma að setja slíkar áætlanir fram. Ég nefndi löggæsluáætlun í ræðu minni og slíkar greiningar sem eru grundvöllur að (Forseti hringir.) yfirveguðum ákvörðunum þegar kemur að veitingu fjármagns.