145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er búið að margítreka hve þessi stofnun hefur staðið sig vel í því viðamikla verkefni sem hún hefur haft með höndum, í að skila árangri, skilvirkni. Það er ekkert upp á hana að klaga, eins og sagt hefur verið, og henni hefur verið hrósað af eftirlitsstofnunum okkar eins og Ríkisendurskoðun og fleirum og hælt á erlendum jafnt sem innlendum vettvangi. Sú skýrsla sem ákvörðun utanríkisráðherra virðist byggjast á, þ.e. úttekt fyrrverandi starfsmanns Rauða krossins, með fullri virðingu fyrir þeim einstaklingi, Þóri Guðmundssyni, færir ekki heldur full rök fyrir því að þetta sé eina leiðin. Það hefur líka verið vakin athygli á skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um sama málefni frá 2008 þar sem koma fram röksemdir gegn því að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður. Þessi asi á hæstv. ráðherra í málinu núna einkennist af mikilli þráhyggju. Það hefur verið bent á að reynsla annarra ríkja af því að hafa sjálfstæða stofnun utan um þróunarsamvinnu, eins og t.d. í Svíþjóð, hafi verið góð. Er eitthvað, ef hv. þingmaður með fullum vilja mundi reyna að finna eitthvað, sem getur rökstutt það málefnalega að það eigi að fara út í þessa vegferð eða er hæstv. ráðherra í algerri (Forseti hringir.) blindgötu? Getum við þingmenn stjórnarandstöðunnar sem höfum talað í málinu gert eitthvað til að draga hann upp úr þessum forarpytti?