145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna verið er að breyta þessu. Gamalt orðatiltæki segir: Ekki laga það sem ekki er bilað. Mér sýnist Þróunarsamvinnustofnun ekkert vera biluð. Ég heyri lítið annað en hól í hennar garð, sama hvern ég spyr. En þegar kemur að þeim möguleika að flytja verkefni til stofnunarinnar, tvíhliða verkefni o.s.frv., þá er sú leið meðal tillagnanna sem komu frá Þóri Guðmundssyni og eins og stendur í glósunum mínum um þann blessaða fund taldi hann það ekkert síðri kost í sjálfu sér og að sá kostur kæmi vissulega enn þá til greina. Hann gat ekkert sagt okkur um hvers vegna við ættum ekki að fara þá leið, en eftir stendur það að kýla á þá leið í gegn þrátt fyrir pólitískt ósætti að leggja stofnunina niður. Þá velti ég fyrir mér hvort ekki væri þá nær lagi að fara þá leið að færa stofnunina inn í ráðuneytið án þess að leggja hana niður. Mig langar í það minnsta að heyra (Forseti hringir.) hvort hv. þingmaður (Forseti hringir.) sér fyrir sér að tilfærsla stofnunarinnar inn í ráðuneytið muni breyta einhverju. Hvaða áhrif hefði það?