145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi krafa um kvöldfund er væntanlega til komin vegna þess að stjórnarmeirihlutanum finnst minni hlutinn tala of mikið um málið og nýta tímann illa. Ég fullyrði enn og aftur að mesta vannýtingin á tíma felst í því samskiptaleysi sem á sér stað milli minni hluta og meiri hluta.

Í gærkvöldi sat utanríkisráðherra hér í einhverja stund og hlýddi á umræður. Var það að sérstakri beiðni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann lagði fram fimm mjög skýrar spurningar til ráðherra. Það fór enginn í andsvar, en ekki heldur hæstv. ráðherra.

Það gerist að mínu viti langoftast ef ekki hreinlega alltaf að þegar samtalið á sér raunverulega stað þá styttist umræðan; þá komast samskipti á sem geta mjakast að einhverjum lausnum. Vandinn hér er ekki bara sá að minni hlutinn tali of mikið, heldur það að meiri hlutinn talar of lítið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)