145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir utan það hvað þetta er vont mál höfum við gagnrýnt harðlega hvernig farið var með málið í gegnum nefnd.

14. október rann út umsagnarfrestur. Daginn eftir var haldinn fundur í nefndinni og málið tekið á dagskrá. Minni hluti nefndarinnar gerði athugasemdir við það að ekki hefðu verið kallaðir til gestir. Þá sagði formaðurinn, samkvæmt fundargerð nefndarinnar sem er opinber öllum, að vissulega mætti verða við því að fá einhverja gesti, en málið yrði jafnframt afgreitt út á þeim fundi. Það var alltaf ætlunin að afgreiða það og var síðan gert daginn eftir utan hefðbundins fundartíma. Málið var rifið út. Finnst þingmönnum þetta í lagi? Mundu þeir láta bjóða sér þetta væru þeir í minni hluta í þinginu? Það held ég ekki.

Það að forseti skuli sjálfur taka þátt í þessum vinnubrögðum með því að ætla að keyra svo umdeilt mál inn í kvöldið eftir að minni hlutinn í þinginu hefur orðið fyrir annarri eins valdníðslu og ég er hér (Forseti hringir.) að gera grein fyrir finnst mér algjörlega ótækt.