145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að leggjast gegn því að haldinn yrði kvöldfundur enda sá ég fyrir mér að við mundum ræða mikilvæg mál eins og frumvarp til laga um opinber fjármál. Við erum með fjárlagafrumvarpið undir og fjáraukalögin og allt þetta þarf að klára fyrir jól þannig að ég ætla að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.

Mér finnst að forseti og kannski forustumenn ríkisstjórnarinnar þurfi að horfa á að hér eru mál sem er verið að afgreiða í miklum ágreiningi. Er það ekki þess virði að setjast niður yfir kaffibolla og reyna að finna einhverja lausn á þessu? Mér finnst þingið í gíslingu út af þessu eina máli. Eins og ég segi liggja fyrir mjög brýn og mikilvæg mál og ég vil til dæmis að frumvarpið um opinber fjármál fái góða og mikla umræðu í þinginu — og helst ekki á Þorláksmessu.