145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Í svari hæstv. umhverfisráðherra til mín í síðasta mánuði við fyrirspurn minni um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi kemur fram að losun frá framræstu landi er 72% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Sjávarútvegurinn ber ábyrgð á um 3% og samgöngur, fólksbílar, 4%. Það er rétt að geta þess að í þessu svari umhverfisráðherra er stuðst við nýjasta mat loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna á losun frá framræstu landi.

Þegar þetta liggur fyrir finnst mér blasa við hvar er eftir mestu að slægjast í þessum efnum hér á landi. Að sama skapi hlýtur að blasa við öllum réttlátum mönnum að aðgerðir gegn bílaeigendum, heimilum í landinu, sjávarútvegi, breyta heildarlosun óverulega, nánast ekki neitt.

Mér þykir hins vegar mjög miður að í upplýsingum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur dreift til fjölmiðla að undanförnu, í þessari viku og þeirri síðustu, eru þessar nýjustu og nákvæmustu upplýsingar um heildarlosun ekki notaðar. Í glærukynningu ráðuneytisins fyrir fjölmiðla í síðustu viku til að mynda er losun frá framræstu landi sögð vera núll, engin. Þetta er ekki aðeins í hróplegu ósamræmi við svarið til mín í síðasta mánuði heldur líka við svar ráðuneytisins við fyrri fyrirspurn minni frá því í apríl þar sem losun frá framræstu landi var sögð 12%. Á síðustu sex mánuðum hefur ráðuneytið því farið úr 12% í 72%, svo að lokum niður í 0% í dag. Þetta er ekki boðlegur hringlandaháttur í þessu mikilvæga máli. Ég tel mikilvægt að hinir háæruverðugu fulltrúar Íslendinga (Forseti hringir.) á Parísarráðstefnunni í næstu viku séu upplýstir um þessi mál og hafi staðreyndirnar á hreinu áður en þeir fara að ræða um þau hér heima eða heiman.