145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líka þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem sannar fyrir mér hversu margslungin loftslagsmálin eru. Þau hafa margar hliðar. Sannarlega höfum við í allri þessari vinnu haft samvinnu að leiðarljósi og við höfum tengt ýmsa aðila við vinnu okkar.

Aðalatriðið er, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom að, að marka sér stefnu og svo nær maður bæði peningum og öðrum í vinnu með sér að þeirri stefnu. Sýn þarf að vera skýr og ég er algjörlega sannfærð um að ef maður hefur hana skýra nær maður því markmiði með einum eða öðrum hætti.

Við höfum líka unnið mikið með atvinnulífinu, eins og ég segi. Það mun koma í ljós á næstu dögum varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn og fleira að enginn einn setur þetta fram. Þetta er samvinnuverkefni.

Eitt sem ég ætla að segja ykkur er að fjöldi manns fer til Parísar frá Íslandi. Við erum ekki alveg fullsköpuð, þá þyrfti kannski ekki Parísarfundinn, við erum líka að fara þangað til að læra af öðrum þjóðum og sjá hvað þær hafa fram að færa. Við erum búin að taka til hvaða kosti við höfum hér á landi, hverju við getum miðlað inn í alþjóðasamfélagið í þáttum sem við erum kannski betri í en margir aðrir. Við viljum reyna að styrkja veikleika sem við höfum.

Hugur minn stendur til þess að þjóðir geti núna sameinast um góð markmið á Parísarfundinum. Ég tek undir að ég held að það sé algjör nauðsyn að þjóðir heims bindist núna samtökum um að gera eitthvað róttækt í loftslagsmálunum. (Forseti hringir.) Við stöndum á þeim þröskuldi að við verðum að fara að stíga fram á við og taka alvarlega á losun.