145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að halda því til haga í umræðunni að mikil aukning hefur verið á landsframleiðslu ár eftir ár á undanförnum árum sem hefur þýtt að jafnvel þó að við höfum ekki hækkað hlutfall af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar jafn hratt og vonir stóðu til að við gætum gert þá höfum við sett mörg hundruð milljónir til viðbótar í málaflokkinn, nú síðast með sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar þar sem við ákváðum að bregðast við vegna flóttamannavandans. Við erum að setja um 500 millj. kr. milli umræðna í málefni sem fara til alþjóðastofnana sem sinna því sem fellur undir þróunarstarf á viðkvæmum svæðum. Í krónum talið erum við að stórauka framlögin, m.a. vegna vaxtar í landsframleiðslu en síðan til viðbótar vegna sérstakra ákvarðana stjórnvalda.

Eitt prósent af landsframleiðslu væri 20 milljarðar í þennan málaflokk. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að setja okkur einhver slík markmið eins og mér finnst menn slá fram eins og það sé bara ekkert mál og sé til skammar að við séum ekki löngu komin þangað, (Forseti hringir.) þá verða menn að gera einhverja raunhæfa áætlun um það hvernig við eigum að komast í stöðu til að skapa svigrúm fyrir slík framlög.