145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel mjög miður að breytingartillaga minni hlutans hafi ekki verið samþykkt þar sem þetta væri fært í þann farveg að hver ríkisstjórn skyldi setja fram markmið sem innihéldi þá þætti sem hér eru undir í upphafi hvers kjörtímabils eða starfstíma síns. Deilan um það hvort menn vilja lögbinda tölusett viðmið í þessum efnum eða hafa þetta með öðrum hætti snýst líka um það hvert innihaldið sé þá. Hæstv. fjármálaráðherra hefði kannski átt að gera þingmönnum grein fyrir því að hér er þá lagt til að samþykkja stífustu fjármálareglur á byggðu bóli. Gera menn sér fulla grein fyrir því að hér er lagt til í lögum að heildarskuldir ríkis og sveitarfélaga, A-hluta þessara aðila, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum verði ekki nema 30% af vergri landsframleiðslu? (Gripið fram í: Gott mál.) Það er gott mál, já. Við vildum það sjálfsagt gjarnan en ætli það eigi ekki eftir að reynast handleggur að komast þangað og halda sér þar. Er endilega skynsamlegt (Forseti hringir.) að gelda svo, ef ég má orða það þannig, möguleika hins opinbera til að verja samfélag sitt í gegnum hagsveiflur?