145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir framsöguna fyrir þessu máli sem út af fyrir sig horfir til bóta þó að það valdi ekki stórum breytingum á stöðunni á húsnæðismarkaði. Eða ætti maður kannski frekar að segja hæstv. félags- og húsnæðisleysisráðherra í ljósi þess víðtæka aðgerðaleysis sem einkennt hefur þetta kjörtímabil. Það er auðvitað full ástæða til að inna ráðherrann eftir því, þó að hér komi fram seint og um síðir lítið mál sem ekki mun breyta miklu á húsnæðismarkaði, hvað líði boðuðum frumvörpum ráðherrans, þeim fjármunum sem á þessu ári, 400 milljónir held ég að það hafi verið, áttu að vega upp á móti matarskattinum, húsnæðisbótunum sem boðaðar voru, þeim stóru málum sem festust í fjármálaráðuneytinu ef við skildum málin rétt í vor. Það er þannig að ráðherrann hefur setið árin 2013, 2014 og nú senn 2015 í embætti. Við erum að koma inn á vorþing undir lok kjörtímabils, næstsíðasta ár kjörtímabils. Það sem frá ráðherranum kemur úr þessu fer að verða með þeim hætti að það verður ætlað næstu ríkisstjórn og næsta ráðherra að framkvæma. Algert aðgerðaleysi virðist ætla að verða niðurstaðan af þessu kjörtímabili. Eða er von á einhverjum málum sem verða afgreidd fyrir jól og skipta máli um það að fjölga úrræðum fyrir ungt fólk sem er að leita sér að íbúðarhúsnæði og er í miklum vanda með það eins og menn þekkja?