145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru ágæt. Þetta með rúmmálsregluna er nú atriði sem efnahags- og viðskiptanefnd getur auðveldlega farið yfir ef hún vill. Það eina sem mér finnst alltaf skynsamlegt að gera við svona aðstæður er að kynna sér hvernig viðkomandi skattaregla var hugsuð á sínum tíma, fá upplýsingar um það hvernig hún er í framkvæmdinni í dag og ef þetta eru sárafá tilvik og ástæðan kannski sú sem hæstv. ráðherra lýsti, að þetta geti verið ósanngjarnt gagnvart þeim sem allt í einu sitja uppi með svona eign vegna arfs eða annarra slíkra hluta, þá eru það allt saman gild, málefnaleg rök inn í umræðuna.

Varðandi tryggingagjaldið þá gildir það sama, að ég þykist alveg vita að aðilar vinnumarkaðarins séu frekar hvetjandi til þessa en hitt, en spurningin er hvort í leiðinni ætti að skoða þau tímamörk og þær reglur að öðru leyti sem við höfum í þessum efnum. Ég játa mig nú aðeins fátæklega nestaðan til að úttala mig um það í smáatriðum hvar vandinn liggur, en ég veit af þessu, ég hef séð þetta í umfjöllun og þekki það frá fyrri dæmum þar sem þær aðstæður skapast á vinnumarkaði að erlendir aðilar koma inn með starfsmenn yfir einhvern tíma skiptir miklu máli hvernig til tekst með skráningu þeirra og varðar hagsmuni sveitarfélagsins miklu, stéttarfélaga og fleiri aðila, að þeir komi inn á innlendan vinnumarkað og greiði hér skatta og öðlist þá að sjálfsögðu öll réttindi í staðinn. Þar á meðal er það að unnt sé að tryggja að komið sé sómasamlega fram við þetta starfsfólk og það njóti kjara samkvæmt íslenskum samningum o.s.frv. Þetta hangir allt saman og tengist því öllu.

Varðandi álagningardaginn er ég alveg sáttur við þau svör að þetta kunni sem sagt að verða til þess að framkvæmdin í heild sinni færist framar, en í byrjun er þetta örugglega einhver besta sumargjöf sem starfsmenn ríkisskattstjóra hafa lengi fengið. Það er skiljanlegt.