145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[15:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag hefst í París loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Miklar væntingar eru bundnar við þá ráðstefnu enda loftslagsvandinn stærsta úrlausnarefni heimsins alls um þessar mundir. Árangur af þessari ráðstefnu skiptir höfuðmáli um hvort okkur takist yfir höfuð að búa okkur til lífvænleg skilyrði hér á jörðinni í framhaldinu.

Í nýlegri sóknarstefnu ríkisstjórnarinnar vekur athygli hversu lítið er um mælanleg markmið og hversu lítið af fé er lagt til úrbóta í loftslagsmálum. Ísland hefur að sönnu lýst því yfir að það vilji ganga í takt með Evrópusambandsríkjum og minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030. Það vantar eitthvað meira handfast til að sjá með hvaða hætti það eigi að vera mögulegt. Þetta mun kosta peninga en það er ekki að sjá í sóknarstefnunni að fjallað sé um það.

Eina tilvikið þar sem þokkalega skýrt er kveðið á um töluleg markmið er í tilviki sjávarútvegsins þar sem greinin sjálf hefur komið að málum en ríkið skilar býsna mikið auðu. Það eru fjögur ár liðin síðan Ísland fékk viðurkennt endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð en engar útfærslur að finna hvað það varðar. Ríkið hefur nú á undanförnum árum vanefnt samninga sína um framlög til almenningssamgangna gagnvart sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu en átak þar gæti verið eitt útspil sem máli skipti. Markmið um að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum felst eiginlega bara í því að endurflytja þegar samþykkt markmið frá árinu 2011 um að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði orðið 10% árið 2020. Eina peningalega framlagið sem við sjáum er í breytingartillögum nú, 87 millj. kr. framlag (Forseti hringir.) til uppbyggingar innviða vegna rafbíla, en þessi ríkisstjórn eyddi næstum því meira en helmingi þeirri (Forseti hringir.) upphæðar í nýja ráðherrabíla á þessu ári. Enginn þeirra notar rafmagn.

Maður spyr sig: Hvar er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, mun fjármálaráðherra tryggja að fjármagn verði sett í þennan málaflokk (Forseti hringir.) og munum við geta staðið við skuldbindingar sem við tökumst á hendur í París?