145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Til hamingju með daginn.

Frá árinu 1947 hefur Bulletin of the Atomic Scientists, eitt helsta tímaritið um friðar- og afvopnunarmál á Vesturlöndum, birt dómsdagsklukkuna svokölluðu sem hefur þann tilgang að leggja mat á ástand heimsmálanna með tilliti til hættu á kjarnorkustyrjöld. Klukkan var fyrst stillt á sjö mínútur fyrir miðnætti. Stillingum á klukkunni hefur í áranna rás nokkrum sinnum verið breytt og henni ýmist flýtt eða seinkað til að endurspegla breytingar í alþjóðamálum. Fyrst var aðallega horft til sambúðar kjarnorkuveldanna og tæknibreytinga á sviði kjarnorkuvígbúnaðar við mat á stillingunni á klukkunni en hin síðari ár hafa fleiri þættir verið teknir með í reikninginn, t.d. loftslagsbreytingar.

Í upphafi þessa árs var dómsdagsklukkunni flýtt og núna sýnir hún þrjár mínútur í miðnætti. Ástæður breytinganna eru fjórar, væringar milli Rússlands og Bandaríkjanna, m.a. í tengslum við Úkraínu, ráðaleysi andspænis loftslagsbreytingum, óleyst vandamál tengd geislavirkum úrgangi og þróun nýrra og öflugri kjarnorkuvopna.

Hæstv. forseti. Það hefur aðeins gerst tvisvar að klukkan hafi náð svona langt, það var þegar stórveldin kepptust við að sprengja kjarnorkuvopn í tilraunaskyni í andrúmsloftinu og þegar kjarnorkukapphlaup kalda stríðsins stóð sem hæst. Næstu daga getur Ísland haft áhrif á tvö af þeim atriðum sem hafa orðið til að þessari dómsdagsklukku hefur verið flýtt, í París þar sem fulltrúar Íslands geta lagt sitt af mörkum til að sporna við loftslagsbreytingum og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland getur með atkvæðagreiðslu sinni (Forseti hringir.) tekið þátt í að banna kjarnorkuvopn. Ég vona svo sannarlega að við hv. þingmenn hvetjum okkar fulltrúa á þessum stöðum til að leggja sitt af mörkum.


Efnisorð er vísa í ræðuna