145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar að spyrja einfaldrar spurningar í ljósi þess sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom að áðan. Liggur einhver greining á bak við það hve margir það eru sem hafa tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum í íslensku samfélagi? Hversu stór hópur er það sem er líklegur til þess að geta staðist greiðslumat á erlendum lánum? Mér finnst það í raun vera nauðsynleg gögn fyrir okkur þingmenn til að fjalla um þær reglur sem verið er að tala um að setja hér á varðandi veitingu gengistryggðra lána eða lána sem tengd eru erlendum gjaldmiðlum. Hér er rætt um aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu og eru þar af leiðandi ekki með tekjur í erlendri mynt. Liggja einhverjar upplýsingar fyrir um hve stór hópur það er?