145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[19:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með orð hv. þingmanns. Hvort það eigi að gera þetta strax, spyr þingmaðurinn. Það eru liðin tvö og hálft ár af kjörtímabilinu, það er ekkert strax. Annaðhvort ætlar Framsóknarflokkurinn að efna einhverjar lagabreytingar um verðtryggingu eða ekki. Ef það kemur ekki fram núna, þegar verið er að opna frumvarpið um vexti og verðtryggingu, þá er augljóst að Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að efna neitt um verðtryggingu á þessu kjörtímabili. Og lofaði hann því þó fyrir kosningarnar um þetta kjörtímabil, ekki um næsta kjörtímabil eða þarnæsta kjörtímabil.

Hér er tækifæri fyrir þingmenn Framsóknarflokksins því að það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem getur varnað því að flutt sé breytingartillaga við þetta frumvarp fjármálaráðherra, ef það er ætlun framsóknarmanna að uppfylla þetta kosningaloforð á þessu kjörtímabili.

En ef það var aldrei ætlunin að afnema verðtryggingu, ef þau loforð voru bara gefin svona út í loftið fyrir þetta kjörtímabil, og framsóknarmenn ætla meira að segja að láta fjármálaráðherrann hæða sig svo og spotta að hann hafi ekki á tveimur og hálfu ári getað stytt tímann á verðtryggðum lánum úr 40 árum í 25 ár eins og hann hefur þó, að því er virðist, gefið Framsóknarflokknum einhvers konar ádrátt um til þess að koma til móts við þá í málinu hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Ætlar hann ekki að minnsta kosti að taka á því? Það er komið eitt og hálft ár síðan niðurstaða nefndar forsætisráðherra var sú að það ætti að gera. Hér hefur ítrekað verið boðað að frumvarp væri á leiðinni inn um það. Ekki ætla menn að koma með það hér inn á kosningavetri? Það er alveg ljóst að á því stutta þingi mun ekkert verða að lögum. Það er annaðhvort núna eða ekki, virðulegur þingmaður. Á þá ekki að minnsta kosti að banna hin lengri lánin, eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt svo mikla áherslu á, hvort sem það er gott eða vont?