145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það hefur ekki gengið vel hjá hæstv. ráðherra ferðamála að fóta sig á því sviði sem hún er á. Það segir sig sjálft að þegar fjármunir koma svona seint inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þá þurfa þeir sem koma til með að nýta þá fjármuni miklu lengri tíma til undirbúnings til að geta sótt um og nýtt þetta fé. Þegar féð kemur svona seint þá nýtast þessir fjármunir ekki sem skyldi, eins og hefur komið fram. Það hefði átt að liggja fyrir í upphafi árs í fjárlögum hvað væri ætlað til uppbyggingar innviða í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Voru ekki 145 milljónir í fjárlögum? Síðan bættust við í sumar rúmar 850 milljónir svona handahófskennt til þess að redda málunum. Þá var verið að koma með fjármuni allt of seint. Það tekur tíma að fara í gegnum skipulagningu sveitarfélaga og ýmsa hluti í ferlinu til að fá leyfi fyrir því sem tilheyrir innviðauppbyggingu. Þetta eru handarbaksreddingar sem eru alveg með ólíkindum og sýna hvað hægri stjórnin hefur lítil tök á fjármálum yfir höfuð. Það hefur gengið sú mýta að enginn geti stjórnað landinu og hafi vit á efnahagsmálum nema hægri menn. Það er löngu búið að afsanna það. Ég get þess að þegar ég tala um hægri menn þá eru það auðvitað framsóknarmenn líka.

Ég vil í lokin benda á að eingöngu 10% landsmanna eiga 70% eigna í landinu. (Forseti hringir.) Það er gífurleg misskipting hér sem blasir við. (Forseti hringir.) Það verður að fara að koma stjórn sem þorir (Forseti hringir.) að taka á þessari misskiptingu.