145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna.

Já, ég tel að hér megi sjá áherslur hæstv. ríkisstjórnar. Við höfum séð þær allt frá því að hún tók við völdum hvernig áherslur hennar eru. Mjög stór hluti þess sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert hefur verið í þágu þeirra sem best hafa það nú þegar, þ.e. að létta af þeim álögum, að þeir borgi minna til ríkisins, og fyrir vikið er auðvitað minna um peninga í ríkissjóði sem þýðir að minni peningar eru til að setja í heilbrigðiskerfið. Það eru minni peningar til að setja í velferðarkerfið og það eru minni peningar til að setja í menntakerfið. Það eru minni peningar til að setja í þau tæki sem við höfum til jöfnunar á kjörum í landinu. (Gripið fram í.)

Þetta leiðir vitaskuld af sér að bilið eykst. Kjör þeirra sem hafa það nú þegar gott batna meðan kjör þeirra sem höllum fæti standa, svo sem lífeyrisþega, batna ekki og hlutfallslega verður bilið á milli þeirra og þeirra sem betur mega sín í samfélaginu breiðara. Já, það er sú áhersla sem ég les fyrst og fremst út úr bæði þessu frumvarpi sem og öðrum stórum verkum núverandi ríkisstjórnar.