145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar barnabæturnar þá tek ég undir með minni hluta fjárlaganefndar sem bendir á að þau framlög sem ætluð voru til barnabóta eru afturkölluð að hluta. Það sýnir í raun og veru að mati minni hlutans, og ég tek undir þá túlkun, að skerðingarnar voru of miklar. Þarna er verið að breyta barnabótakerfinu og tengist því sem við vorum að ræða um, að í raun og veru er verið að breyta barnabótakerfinu í gegnum fjárlagaákvarðanir og fjáraukalagaákvarðanir. Það sýnir að ríkisstjórninni er meira í mun að tryggja það að barnabætur renni eingöngu til allra tekjulægstu hópanna en að nýta það framlag sem Alþingi Íslendinga hafði áætlað í barnabætur og hækka þá skerðingarmörkin, af því að þetta er ekki spurning um fjárhagslega nauðsyn, þetta er spurning um pólitískt val og pólitíska ákvörðun sem birtist með þessum hætti. Peningarnir eru til en það á ekki að nýta þá fyrir barnafjölskyldur. Það á að taka þá aftur inn í ríkissjóð af því að það er pólitískt val núverandi ríkisstjórnar að barnabætur eiga bara að vera fyrir allra tekjulægstu hópana og þær byrja að skerðast við mjög lágar tekjur. Þetta er umræða sem ég held að samfélagið sé kannski fyrst að átta sig á. Ég veit ekki hversu marga ég hef hitt sem eru á mínum aldri, fólk sem er enn þá með börn sem segir: Hvernig stendur á því að ég fæ engar barnabætur lengur og hvernig í ósköpunum er þetta ákveðið? Þegar ég útskýri að það sé gert í gegnum fjárlög, í þeirri þriggja klukkutíma atkvæðagreiðslu þar sem stórt og smátt er undir, þá spyr fólk auðvitað: Hvers konar pólitísk umræða á sér stað í landinu, hvers konar pólitísk stefnumörkun eftir allt sem við höfum sagt um að breyta vinnubrögðum, faglegum vinnubrögðum og ég veit ekki hvað?

Með tónlistarskólana þá kemur mjög skýrt fram að framlagið er skilyrt við það að það renni eingöngu til þeirra skóla sem hafa safnað skuldum vegna þjónustustigs umfram ramma Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. (Forseti hringir.) Þeir fjármunir ættu því að nýtast með réttum hætti og breyting á því þarf að koma inn í ný lög um tónlistarmenntun.