145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er það gott ef ráðherrar og framkvæmdarvaldið eiga góð samskipti við þingið. Það finnst mér hið besta mál undir öllum kringumstæðum. En það breytir því ekki að við hljótum að gera þá kröfu að almennt sé reglan sú að fjármunum sé varið með sem gagnsæjustum hætti. Það þýðir að fyrir liggi áætlanir sem byggja á einhverri stefnumörkun. Ég vil nefna í því samhengi margboðaða samgönguáætlun sem enn hefur ekki verið lögð fram og enginn veit í raun og veru hvernig á að líta út. Samkvæmt fjárlögum er hún orðin ansi rýr og döpur. Þetta er stefnumótunin sem á að vinna af samgönguráði, lúta ákveðnum ferlum sem við höfum sett í lög og við höfum sammælst um að eigi að vera ferillinn sem við notum til að ákveða að skipta hér fjármunum á vegaframkvæmdir. Þessi áætlun er ekki til, hún liggur ekki fyrir samþykkt, og þá er hægt að spyrja sig: Hvað getur þingið gert? Við erum búin að koma hér upp og spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er áætlunin? Jú, áætlunin er á leiðinni. En þetta setur þingið í mjög erfiða stöðu.

Svo vil ég segja það af því að hv. þingmaður nefndi innleiðingu opinberra fjármála að mér skilst að verið sé að horfa til þess að ráðuneytin fái eitthvert fjármagn til að innleiða þetta nýja lagaumhverfi. En á Alþingi þá að sitja eftir í þeim efnum? Hvaða fjármagn fær Alþingi til að innleiða þetta nýja lagaumhverfi? Hvernig verður staðið að stuðningi við fagnefndir hér? Verður sett upp einhver efnahagsskrifstofa á þinginu? Okkur mun ekki veita af því til að geta sinnt því hlutverki sem okkur er ætlað. Mér finnst þetta líka stundum þegar við erum að ræða fjárlög, tillögurnar eru mjög oft unnar af framkvæmdarvaldinu, Alþingi kemur svo inn í þetta ferli og setur sinn svip á þær tillögur en sjálfir rammarnir, sjálfur grunnurinn kemur frá framkvæmdarvaldinu. Með þessari nýju löggjöf erum við í raun og veru að styrkja framkvæmdarvaldið en ég óttast að við séum ekki að huga að því nægilega vel að hlutverk Alþingis verði styrkt að sama skapi.