145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:21]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minntist nokkrum sinnum í ræðu minni á Nostradamus, þann fræga forspáa mann. Mér er illa við að ætla að fara að gerast einhver Nostradamus. Það verður að viðurkennast að í samanburði við hv. þingmann er sá sem hér stendur náttúrlega algjör kettlingur í pólitík og í þingmennskunni, þannig að ég er kannski ekki jafn glöggskyggn á það hvernig pólitíkin virkar eða forspár. En ég leyfi mér að vera jákvæður og bjartsýnn vegna þess að mér finnst þetta í fullri einlægni sagt, þó svo að hér séu auðvitað meiri hlutinn og ríkisstjórnarflokkarnir að leggja fram fjáraukalög og minni hlutinn í hlutverki sínu að veita aðhald að fara yfir þau, ekki vera hlutverk meiri hluta eða minni hluta. Við í minni hlutanum eigum ekki þá sjálfsögðu hugmynd að það ríki réttlæti og að lægstlaunuðu hóparnir fylgi öðrum. Það er náttúrlega alls ekki hugmynd sem er okkar eða að við ein eigum hana. Þetta er sjálfsagt réttlætismál sem ég held að þyrfti mestu siðblindingja til þess að kinka ekki kolli yfir. Og maður finnur það í samfélaginu og maður finnur það líka inni í þessu húsi að það er mikill skilningur og velvilji gagnvart því sem felst í breytingartillögu minni hlutans. Eins og ég sagði áðan leyfi ég mér að vera bjartsýnn, mér finnst það í raun og veru ekki skipta máli hvaðan atkvæðin koma, hvort þau heita minni hluti eða meiri hluti, það byrjar hvort tveggja á m, það er nógu gott fyrir mig á meðan hv. Alþingi sér að sér.