145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:56]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úrskurðarnefnd upplýsingalaga er nefnd sem komið var á í kjölfar hrunsins, ef ég man rétt, til að sjá til þess að þær stofnanir sem eru skyldugar til að veita almenningi, fjölmiðlum og til dæmis þinginu upplýsingar gerðu það, en þegar þær neituðu að veita upplýsingar eða þegar vafi er á hvort fólk á rétt á því að fá þessar upplýsingar geta þær skotið niðurstöðunni til úrskurðarnefndar upplýsingalaga. Umsýslusvið úrskurðarnefndar var víkkað en því fylgdi ekki aukið fjármagn til að ráða í stöðugildi í takt við aukið álag. Með því að víkka út svið nefndarinnar komu inn fleiri beiðnir og það þýðir að núverandi úrskurðarnefnd sinnir ekki lögbundnu hlutverki sínu í því að skila af sér á tilteknum tíma heldur er þar þvílíkur hali og hefur ekki verið hægt að fá nein skýr svör frá hæstv. forsætisráðherra hvað gera eigi í því.

Eftir því sem við best vitum, eftir að hafa talað við formann úrskurðarnefndar, virðist vera að hægt sé að vinna úr þessum hala mjög auðveldlega með því einfaldlega að auka við stöðugildi sem er 50% og hafa það 100% eða þá að ráða einhvern annan í 50% stöðugildi. Það er nú ekki flóknara en það. Þetta er mestmegnis pappírsvinna. Aðstaðan er til staðar þannig að það þarf ekki mikið til að laga stöðuna, en það mundi skila mjög miklu. Umboðsmaður Alþingis hefur hafið frumkvæðisrannsókn á halanum, þ.e. af hverju úrskurðarnefnd upplýsingalaga skilar ekki af sér á lögbundnum tíma.