145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Væri ég hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði ég ekki komið í pontu til að bera saman verk og árangur þessarar ríkisstjórnar og síðustu ríkisstjórnar þegar kemur að kjörum öryrkja og annarra lífeyrisþega. Mér hefði bara ekki dottið það í hug.

Fyrsta verk síðustu ríkisstjórnar hér vorið eða sumarið 2009 var að skerða (Gripið fram í: … að taka tillit til Sjálfstæðisflokksins.) með afdrifaríkum hætti kjör flestra öryrkja og lífeyrisþega, að vísu ekki þeirra sem voru á strípuðum bótum en allra annarra svo um munaði. Um mitt ár 2011 er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að hreykja sér af því að kjör hafi verið bætt í samræmi við kjarasamninga þá. Það er alveg hræðilega aumkunarvert að hlusta á þetta.

Hvað er það fyrsta sem núverandi ríkisstjórn gerði þegar hún kom til valda sumarið 2013? Hún dró til baka allar þær skerðingar sem vinstri stjórnin hafði sett á. (LRM: Sem komu bara af himnum ofan.) Það skiptir engu máli. (Gripið fram í: Neei, …) Hvað gerði þessi ríkisstjórn og hvað gerði hin ríkisstjórnin? (VigH: Það skiptir máli.) [Háreysti í þingsal.]

Þarna eru (Forseti hringir.) einfaldlega skerðingarnar. Það er erfitt fyrir ykkur að sætta ykkur við þetta, ég veit það. (Gripið fram í: Manstu þetta?) Já, ég get lesið upp ef ég hef tíma til þess.

(Forseti (EKG): Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur orðið.)

Þarna voru skerðingar sem voru ekki teknar til baka fyrr en 2011. Ætla menn svo að hreykja sér af því? (LRM: Já.)Hvað gerðu menn hér 2009? (Gripið fram í: … 2011.) (Forseti hringir.) Ég get bara ekki talað, virðulegur forseti.

(Forseti (EKG): Forseti tekur eftir því.)

Ég verð eiginlega að fá að byrja upp á nýtt. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) (Gripið fram í: Fara með rétt mál.) Það er verið að fara með rétt mál. Árið 2013 eru skerðingar teknar til baka og á þessum þrennum fjárlögum sem ég hef gert kostar það ríkissjóð 22,5 milljarða. (Gripið fram í.) Já, það er allt önnur umræða. 22,5 milljarða. (LRM: Sérðu eftir því?) Nei, ég sé ekki eftir því.

Svo er búið að bæta hér núna kjör þessara bótaþega (Forseti hringir.) um meðaltal launahækkana. Þeir fengu 3% í byrjun janúar sem launþegar fengu ekki (Forseti hringir.) og nú er staðan sú að kjörin eru sambærileg og meðalhækkunin fyrir alla launþega sem hefur verið samið við. (LRM: … lifa á 180 þús. kr. á mánuði.)Ég er ekkert að tala um það. Á hverju lifðu menn þá á síðasta kjörtímabili? (Forseti hringir.) Veit þingmaðurinn það. Nei. (Gripið fram í.)


Efnisorð er vísa í ræðuna