145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ein mínúta er allt of fljót að líða.

Varðandi byggðamálin almennt vil ég segja að ég var ekki að reyna að sannfæra nokkurn mann, ég var að fara yfir tillögur sem lagðar eru til í breytingartillögu meiri hlutans og snúa að innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, snúa að samgöngum, höfnum, flugvöllum, fjarskiptum. Grundvallaratriðum í innviðauppbyggingu landsbyggðarinnar.

Virðulegur forseti. Þegar kemur að sóknaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem lögð var fram á síðasta lokasprettinum þá er það svo að hún var ekki með öllu fjármögnuð þegar allt kom til alls. Og það sem meira er, það sem ég hef verið að koma inn á í ræðu minni eru allt atriði sem sveitarfélög, sem hafa verið að koma fyrir fjárlaganefnd, hafa verið að leggja gríðarlega mikla áherslu á í innviðauppbyggingu eins og ég sagði áðan; hafnir, flugvellir, samgöngur, fjarskipti. Það er það sem meiri hlutinn er að bregðast við og er að setja, vil ég segja, hundruð milljóna í hvern og einn þessara málaflokka. Það er auðvitað gríðarlega jákvætt. Það er það sem ég reyndi að rekja í máli mínu. Ég var ekki að reyna að sannfæra nokkurn mann (Forseti hringir.) hvað þá hv. þingmann. (LRM: Gagnvart kjósendum?)