145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem fjallaði fyrst og fremst um byggðavinkilinn sem er auðvitað gott að sé haldið til haga.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því hann á sæti í hv. fjárlaganefnd, ef ég fer rétt með, út í breytingartillögu meiri hlutans á bls. 22. Þar er annars vegar lagt til að 200 þús. kr. fjárheimild verði millifærð til Þórbergsseturs vegna endurnýjunar á samningi og hins vegar, beint fyrir neðan, er gerð tillaga um 59 millj. kr. tímabundið framlag til ýmissa styrkveitinga sem ráðuneytið útfæri nánar. Mér finnst þetta svolítið há upphæð. Getur hv. þingmaðurinn upplýst mig um það í hvað þetta eigi að fara? Er bara verið að gefa ráðherranum tékka upp á 59 milljónir í eitthvað?