145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er leitt að hv. þingmaður hefur ekki lesið fjárlagafrumvarpið vegna þess að það kemur fram þar að nokkur hundruð milljónir vanti í að jafna að fullu niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. En gott og vel.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann út í framhaldsskólana í landinu. Það er mikið byggðamál en búið er að fækka nemendaígildum og 25 ára reglan er þannig að nemendur eldri en 25 ára geta ekki hafið bóknám, líka vegna þess að nemendaígildum hefur verið fækkað. Þetta hefur þýtt það að á milli ára, frá 2014/2015, hefur nemendum í framhaldsskólum fækkað um 742 og þar af 400 í bóknámi. Þetta bitnar harkalega á nemendum á landsbyggðinni sem hrekjast úr námi, þetta er fólk sem er að fara aftur í nám og hefur hingað til getað gert það í heimabyggð sinni. Er hún uppbyggileg fyrir landsbyggðina sú framganga sem hv. þingmaður er að skrifa upp á með því að samþykkja þetta fjárlagafrumvarp?