145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:15]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Hv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, þó að hún hafi ekki verið mikið uppbyggjandi.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé kominn tími til að Samfylkingin hætti þeirri afneitun að hún hafi verið hér í ríkisstjórn, í þeirri hrunríkisstjórn sem mikið er verið að (Gripið fram í.) benda á. Ég vitna hér í heimasíðu Ögmundar Jónassonar. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Á fundi í Kaupmannahöfn 11. mars [2008] þar sem Ingibjörg Sólrún hélt erindi á pepp-fundi með Sigurði Einarssyni, bankastjóra KB banka, og fleirum sagði hún: „Nogle påstår, at bankerne er blevet for store for landet og at den nuværende turbulens vil medføre en alvorlig økonomisk (Gripið fram í.) krise i det islandske samfund. Efter min mening er denne frygt helt ubegrundet.“ (Gripið fram í.) Já, til eru þeir sem segi að bankarnir séu orðnir of stórir og að við kunnum að lenda í krísu. Sá ótti sé með öllu tilhæfulaus.

Getur Samfylkingin svo komið hingað og lýst sig fría, lýst allri ábyrgð á aðra flokka? Á Framsóknarflokkinn? Ég spyr hv. þingmann: Hver er ábyrgð Samfylkingarinnar á ástandinu eins og það varð eftir þessa uppákomu?