145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hverjum hefði getað dottið í hug að fresta þyrfti fundi til að ræða kjör aldraðra og öryrkja af því að fjármálaráðuneytið væri ekki með tölur á reiðum höndum? Hverjum gat dottið í hug þegar rætt var um þennan fund í morgun að ráðuneytið kæmi ekki þegar þingið kallaði á þá, að framkvæmdarvaldið sæi ekki til þess að þegar þingið kallar mæti þeir á staðinn?

Aðeins vegna orða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem er varaformaður hv. fjárlaganefndar. Hann vísaði í persónuleg samtöl. Hann hefur ekki átt persónulegt samtal við mig í allan dag og er ég þó einn þriðji af minni hluta hv. fjárlaganefndar. Það má vera að samtöl hafi átt sér stað en þau hafa ekki átt sér stað við að minnsta kosti einn fulltrúa fjárlaganefndar.