145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýst ekkert um þingreynslu eða reynslu fólks af setu í fjárlaganefnd. Það snýst ekki heldur um flækjustig almannatrygginga. Það snýst ekkert um það, það snýst um þá einföldu bón, þá einföldu ósk minni hluta fjárlaganefndar að fá að ræða beint við þá aðila sem málið varðar, sem nei-liðarnir sneru niður í atkvæðagreiðslu í gær, stjórnarliðarnir, að ræða við aldraða og öryrkja milliliðalaust og fá afstöðu þeirra og samtal um þetta mál. Málið snýst einfaldlega um það.

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, það er móðgun við það fólk sem boðað hefur verið til fundar til að ræða þetta alvarlega mál að afboða fundinn með svo stuttum fyrirvara vegna þess að stjórnarliða vantar gögn. Ef ég hef skilið forseta rétt í dag liggur málið hér fyrir til 3. umr. Afgreiddum við það þannig án þess að fyrir lægju nægileg gögn? Gengu þau hér til atkvæðagreiðslu í gær án þess að fyrir lægju nægileg gögn um málið? Hvers konar söfnuður er þetta, virðulegur forseti?

Það er ekkert að treysta orðum forustumanna í fjárlaganefnd (Forseti hringir.) hvað þetta varðar. Ég óska eftir því að þingflokksformenn verði kallaðir saman og það verði handsalað eða frá því gengið með tryggum hætti hvenær þessi fundur verður haldinn (Gripið fram í: Í hádeginu á morgun.) (Forseti hringir.) og að það verði nákvæmlega frá því gengið hvenær til fundarins verður boðað því að ekki er að treysta orðum forustumanna fjárlaganefndar.