145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns kom ekki mjög á óvart. Hún gekk í stuttu máli út á það að hv. þingmaður hefur á sínum langa ferli bjargað öllu, alltaf, og ávallt tekið við öllu í fullkominni rúst, en sem betur fer fyrir íslenska þjóð erum við svo lánsöm að hafa hv. þingmann því að annars værum við væntanlega ekki til. Ætli við værum ekki bara flutt af landinu? Ég hugsa það. Það er léttir að hafa hv. þingmann á svæðinu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja, vegna þess að hv. þingmaður ræðir hér mjög mikið um ábyrgð og í annan stað vill hann hafa meiri afgang og annað slíkt, út í tillögu sem hann stendur að um breytingu á fjárlögum og spyrja hann um fjármögnunina vegna þess að hv. þingmaður er svo einstaklega ábyrgur þegar kemur að opinberum fjármálum. Það á að fjármagna þetta meðal annars með því að fá 4 milljarða út úr bættu skatteftirliti. Við höfum séð sambærilegar tillögur og séð tölur hjá síðustu ríkisstjórn, en hv. þingmaður vill helst ekki tala um það eða annað og alls ekki hvernig hún skildi við heldur frekar um hvað gerðist eftir að búið var að gera ráðstafanir í fjárlögum, hvernig endirinn var á þeirri niðurstöðu. Hvernig dettur hv. þingmanni í hug að koma með einhverjar svona tölu út í loftið, 4 milljarða, í bætt skatteftirlit? Hv. þingmaður hefur kallað mikið eftir því að við hlustum á Bankasýsluna og notum hana og hv. þingmaður veit alveg að talan sem er sett inn í arðgreiðslur á fjármálafyrirtækjum er til komin út af því sem Bankasýslan leggur til, en nú ætlar hv. þingmaður að setja bara 8 milljarða þar og talar eins og þetta séu einhverjar nýjar tekjur þegar hann fjármagnar tillögur sínar.

Ég vildi gjarnan, því að hv. þingmaður þekkir þessi mál mætavel, að hann mundi útskýra þetta tvennt fyrir okkur.