145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir að koma hér í ræðustól og ræða um fjárlög við 2. umr. Mér finnst það gott. Mér finnst að það eigi að vera svo að nefndarmenn í nefndum tjái sig og gefi okkur þá kost á að koma í andsvar og eiga samtal við viðkomandi þingmann. Það er hluti af því sem mér finnst að hafi alltaf verið í gildi hér en hefur aðeins farið dvínandi.

Nú fer hv. þingmaður yfir nokkrar breytingartillögur og ræðir það meðal annars að tekjurnar verði meiri en þær eru vegna þess að þau viti að þau fái meiri arð af Landsbankanum. Nú liggur fyrir, við fjárlög 2016, að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar ekkert að gera í því að bæta öldruðum og öryrkjum það sem þau ættu að fá samkvæmt kjarasamningi og eins og við höfum verið að gera í átt að hækkunum lægstu launa o.s.frv. Af hverju er ekki gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu?